Samræmd aðferð við gerð kostnaðaráætlana fyrir byggingar og almennar framkvæmdir
Góð kostnaðaráætlun er grundvöllur réttrar ákvarðanatöku í byggingar- og mannvirkjagerð enda markmið hennar að áætla endanlegan heildarkostnað verkefnis. Áætlunin er einnig grundvöllur ákvörðunar um hvort eigi að ráðast í verkefni eða ekki. Kostnaðaráætlun verður hins vegar aldrei betri en upplýsingarnar sem hún byggir á, þ.e. hversu vel umfang verkefnis hefur verið skilgreint þegar áætlunin er gerð. Hér á landi hafa þessi vinnubrögð við útfærslu kostnaðaráætlana ekki verið samræmd og á það við hvort sem um er að ræða almenna markaðinn eða opinbera verkkaupa.
Rannsóknir sýna að vandaður undirbúningur skilar sér í betri framkvæmd og má því til stuðnings nefna rannsókn Alþjóðabankans á 1.000 verklegum framkvæmdum. Hún leiddi í ljós að 80% þeirra verkefna sem nutu vandaðs undirbúnings voru talin vel heppnuð en 65% þeirra verkefna sem voru undirbúin með óskipulögðum hætti voru talin misheppnuð. Þá hafa rannsóknir t.d. í Noregi, Danmörku, Svíþjóð og Ástralíu sýnt að áætlaður kostnaður vegna mistaka við mannvirkjagerð sé um 10% af veltu mannvirkjageirans. Samkvæmt skýrslu á vegum Byggforsk í Noregi kom fram að um 40% mistaka sem eru gerð í byggingarframkvæmdum komi til vegna slæms undirbúnings verkkaupa sem og þeim ytri og innri römmum sem hann setur framkvæmdinni. Að auki var 20% af mistakakostnaði í framkvæmdum rakinn til hönnunargalla. Þar af leiðandi eru 60% af mistakakostnaði til komin vegna þessara tveggja þátta.
Fyrri rannsóknir og upplýsingar frá hagaðilum á markaðnum hér á landi þ.e. arkitektum, verkfræðingum, ráðgjöfum, opinberum verkkaupum og verktökum sýna að allir hafa komið sér upp sínu eigin verklagi við gerð og greiningu kostnaðaráætlana. Það er hins vegar staðreynd að aðferðirnar eru jafn ólíkar og þær eru margar. Það leiðir til þess að erfitt er að bera saman tvær kostnaðaráætlanir sem eru gerðar hér á landi þar sem hugtök, orðskýringar og aðrir matsliðir geta verið skilgreindir með ólíkum hætti. Með öðrum orðum er erfitt að meta gæði kostnaðaráætlana í byggingar- og mannvirkjagerð hvort sem um er að ræða opinberar framkvæmdir eða ekki.
Að mati hagaðila þótti orðið nauðsynlegt að móta sameiginlegan skilning á ákveðnum skilgreiningum og hugtökum við gerð kostnaðaráætlana svo að allir aðilar í virðiskeðjunni séu að tala sama tungumálið. Með þeim hætti væri unnt að tryggja lágmarks gæði við gerð og framsetningu kostnaðaráætlana. Með framangreint í huga sóttu stjórnir Félags ráðgjafarverkfræðinga (FRV), Mannvirkis- félags verktaka og Samtaka arkitektastofa (SAMARK), um styrk úr Framfarasjóði Samtaka iðnaðarins til verkefnis þar sem mótaður yrði og innleiddur grunnur að stöðluðum aðferðum við gerð kostnaðaráætlana fyrir mannvirkjageirann hér á landi.
Markmið verkefnisins var að:
- Skapa sameiginlegan skilning á markaðnum, hugtökum og orðskýringum sem notast er við þegar kemur að gerð kostnaðaráætlana en það er grundvöllur þess að staðla gerð og skilning á kostnaðaráætlunum á markaðnum.
- Búa til viðmið til að meta hversu vel umfang verkefnis er skilgreint með það að leiðarljósi að skapa grundvöll til að meta á hversu góðum upplýsingum kostnaðaráætlun byggir og þá hversu mikil vikmörkin eru á væntum endanlegum kostnaði verkefnis.
- Auka rekjanleika á framúrkeyrslu þar sem að með stöðluðum skilningi og viðmiðum
á því hversu vel umfang verkefnis er skilgreint og stöðluðum aðferðum við gerð kostnaðaráætlana verður einfaldara að rekja uppruna framúrkeyrslu og svara fyrir þær.
Stjórn Framfarasjóðs Samtaka iðnaðarins veitti verkefninu styrk samkvæmt umsókn stjórna framangreindra félaga og fór verkefnið af stað í upphafi ársins 2021. Var það mat verkefnahópsins að farsælast yrði að móta grunninn að nýju verklagi út frá viðmiðum og stöðlum American Association of Cost Engineers (AACE). AACE samtökin hafa byggt upp staðlaða verkferla til að skilgreina grunn kostnaðaráætlana með það að markmiði að hámarka gæði áætlana og skilgreina stærð vikmarka og eru þau talin standa framarlega þegar kemur að útgáfu á efni tengdu bestunar aðferðum við gerð kostnaðaráætlana og kostnaðarstjórnun. Var það mat verkefnahópsins að farsælast yrði að þróa samræmt verklag út frá þremur viðmiðum og stöðlum AACE, þ.e. óvissu- og áhættuviðmiðum í International Recommended Practices No. 56R-08 fyrir byggingariðnaðinn, forsendur kostnaðaráætlana úr Basis of Estimate 34R-05 og skilgreiningu ákveðinna hugtaka úr Cost engineering terminology 10S-90.
Verkefnahópurinn hefur nú þýtt og staðfært ofangreind viðmið og staðla m.v. íslenskar aðstæður og er það trú stjórna Félags ráðgjafarverkfræðinga, Mannvirkis- félags verktaka og Samtaka arkitektastofa (SAMARK) að afurð verkefnisins mæti framangreindum kröfum og markmiðum sem muni verða til aukinna gæða við gerð kostnaðaráætlana hér á landi, bætts samræmds skilnings og aukins rekjanleika við framúrkeyrslu verklegra framkvæmda. Það er þó ljóst að til þess að þeim markmiðum verði náð er nauðsynlegt að afurðin verði nýtt af stærstum hluta markaðarins, þ.e. verktökum, ráðgjöfum, verkfræðingum, hönnuðum og ekki síst verkkaupum, hvort heldur sem eru opinberir verkaupar eða verkaupar á hinum almenna markaði.
Reykjavík, 20. október 2022.